Fjölskyldan

öll við sama borð

Arna sérhæfir sig í framleiðslu á heilnæmum og bragðgóðum mjólkurvörum án laktósa.

Við almenna matargerð koma mjólkurvörur og laktósi gjarnan við sögu. Oft þarf fólk því að sneiða hjá slíkum vörum ef einhver innan fjölskyldunnar glímir við mjólkursykursóþol. Arna vill leggja sitt af mörkum til lausnar á slíkum vanda með því að bjóða upp á fjölbreytta vörulínu með stöðugt fleiri framleiðsuvörum – afrakstur öflugrar vöruþróunar – og ávallt eru fleiri tegundir í farvatninu. Saman ættu vörur Örnu því að uppfylla þær þarfir sem góð matargerð án laktósa útheimtir.

Vörurnar okkar eru ferskar og heilnæmar, upprunnar í hreinni íslenskri náttúru og henta öllum sem neyta ferskra mjólkurafurða, en sérstaklega vel þeim sem hafa mjólkursykursóþol eða kjósa mataræði án laktósa.

Hvað er mjólkursykursóþol?

Það hefur lengi verið vitað að hæfnin til þess að melta laktósa (mjólkursykur) er mismikil eftir einstaklingum. Laktósi er tvísykra, samansett úr einsykrunum glúkósa og galaktósa. Í líkama þeirra sem búa yfir þeirri hæfni að geta melt laktósa brotnar hann niður í glúkósa og galaktósa í smáþörmunum, sem auðveldar frásog sykranna út í blóðrásina (1). Hæfnin til þessa niðurbrots veltur á framleiðslu líkamans á ensími sem kallast laktasi, en virkni þess felur í sér að hvata niðurbrot laktósans. Skortur á þessu ensími í smáþörmunum leiðir til þess að laktósinn fer óklofinn niður í ristil en frásogast ekki út í blóðrásina. Í ristlinum hittir laktósinn fyrir bakteríur sem nýta hann með tilheyrandi gerjun og loftmyndun. Þessi samanlagða atburðarrás hefur í för með sér þau óþægindi í meltingarvegi sem fólk með mjólkursykursóþol þekkir einum of vel.

Mannfólk, eins og önnur spendýr, framleiðir laktasa á fyrstu skeiðum lífsins sem gerir því kleift að brjóta niður laktósann sem er að finna í móðurmjólkinni. Það dregur hins vegar úr framleiðslu ensímsins hjá flestum spendýrum þegar fæðumynstur þeirra breytist með aldri. Hið sama gerist hjá meirihluta þess mannfólks sem byggir jörðina, en áætlað er að um 35% þess geti melt laktósa fram yfir 7-8 ára aldur (2, 3). Tíðni mjólkursykursóþols er mjög breytileg eftir heimshlutum, og getur jafnvel verið mjög ólík innan sömu landsvæða. Í Evrópu er tíðni mjólkursykursóþols frekar lág samanborið við aðrar heimsálfur þar sem tíðnin getur náð upp í 90-100% eins og í sumum löndum Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Enn sem komið er eru engar beinar rannsóknarniðurstöður til staðar sem sýna fram á raunverulega tíðni mjólkursykursóþols á Íslandi, en leiða má að því líkur að tíðnin hér á landi sé í samræmi við það sem þekkist í Skandinavíu og öðrum löndum Norður-Evrópu, en þar er hún að jafnaði 4-11% (3).

Mjólkursykursóþol eða mjólkurofnæmi?

Mjólkursykursóþol og mjólkurofnæmi er ekki það sama, og mikilvægt er að gera greinarmun á þessu tvennu. Eins og lýst er hér að ofan koma einkenni mjólkursykursóþols fram vegna vangetu líkamans til þess að melta laktósa. Mjólkurofnæmi tengist ekki laktósa heldur próteinum í mjólkinni sem valda því að ónæmiskerfi líkamans virkjast og ræðst gegn mjólkurpróteinum líkt og um óvinveitta sýkla væri að ræða. Mjólkurafurðir án laktósa innihalda sömu mjólkurprótein og hefðbundnar mjólkurafurðir og henta því ekki fólki með mjólkurofnæmi. Ef grunur leikur á því að einstaklingur sé með mjólkurofnæmi borgar sig að leita til læknis því til staðfestingar.

Mjólkurafurðir án laktósa

Hefðbundnar mjólkurafurðir innihalda laktósa í mismiklu magni. Mjólkin sem Arna tekur til vinnslu er meðhöndluð með laktasa. Ensímið er látið vinna við tilteknar aðstæður þar sem kjörhitastigi þess er haldið stöðugu allt þar til laktósinn í mjólkinni hefur verið klofinn niður í glúkósa og galaktósa. Að því loknu er ensímið eyðilagt og mjólkin fer áfram til vinnslu á þeim vörum sem Arna framleiðir.

Afurðir Örnu eru allar án laktósa og henta því sérstaklega vel þeim einstaklingum sem finna fyrir óþægindum í kjölfar neyslu hefðbundinna mjólkurafurða, en einnig þeim sem eru einfaldlega á höttunum eftir ferskum og bragðgóðum mjólkurafurðum.

Heimildir:
1. Silvethorn D. Human Physiology: An integrated approach. 5th ed ed: Pearson Education; 2010.
2. Curry A. Archaeology: The milk revolution. Nature. 2013;500(7460):20-2. doi: 10.1038/500020a.
3. Leonardi M, Gerbault P, Thomas M, Burger J. The evolution of lactase persistence in Europe. A synthesis of archaeological and genetic evidence. International Dairy Journal. 2011;22(2):88-97 doi: 10.1016/j.idairyj.2011.10.010.